154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[20:41]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála því að viðbragðspólitík hefur fengið að leika allt of stórt hlutverk á Íslandi og ég held að það sé eiginlega ekki í boði í nútímasamfélagi öllu lengur. Við höfum brugðist við vandamálum sem að okkur steðja og gert það stundum ágætlega og hrósum svo happi ef nýr fiskstofn syndir í lögsöguna eða ferðamenn streyma til landsins. Það er ekki ofboðslega háleit eða markviss vinna við það að byggja upp framtíðarhagkerfið.

Hv. þingmaður talaði líka um fátækt, sem er auðvitað óboðleg í svo ríku landi vegna þess að hún er ekki af þeirri stærðargráðu að ekki sé auðveldlega hægt að ná betur utan um hlutina og vinna gegn henni. Ég er a.m.k. á því að mikill jöfnuður sé öruggasta leiðin til að skapa friðsamt, öruggt og framsækið samfélag. Við sjáum það auðvitað bara á því að best heppnuðu samfélög veraldarsögunnar eru þessi Norður-Evrópsku skandinavísku samfélög sem hafa byggst upp á hugsjónum jafnaðarmennsku, sama í hvaða flokki menn velja svo að vinna að henni. Það er ekki margt í fjárlagafrumvarpinu sem tekur á þeim vandamálum og stuðlar beinlínis að auknum jöfnuði. Þar er heldur ekki margt sem bendir til þess að erfiðir kjarasamningar séu fram undan. Ágætisviðleitni er í húsnæðismálum en ekki er margt annað að finna. Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort hann óttist að þetta verði fyrir vikið harðari kjaravetur og að launþegar neyðist þá til að sækja allt í gegnum launaliðinn með tilheyrandi óstöðugleika í framhaldinu.